Thursday, October 23, 2014

Snjór

Ég hoppaði hæð mína þegar ég vaknaði og sá að jörðin var hvít. Er búin að vera bíða eftir þessu í svona 2 vikur.  Finnst svo fallegt þegar jörðin er hvít og svo jólalegt, er mikilll jólapervert. 




Í tilefni þess að það var svona jólalegt úti og miðmisserisprófin loksins keypti ég mér fyrsta jólaöl vetrarins ásamt pippsúkkulaði og eyddi kvöldinu undir teppi í þáttagláp.  



Reyndar endist jólafílingur mjög stutt þar sem snjórinn fór daginn eftir, en hann kemur vonandi fljótt aftur. 



Friday, October 17, 2014

Öðruvísi hverdagsleiki

Eftir vinnu í sumar og svo Boston-ferð, sem var geggjuð, er maður loksins komin í hina venjulegu skóli, læra, borða, sofa rútínuna.  Er að reyna að bæta ræktinni í þessa rútínu og það endaði ekki betur en svo að ég svaf yfir mig í spinning og endaði þar með í "skammarkróknum" í Worldclass... Fékk tölvupóst um það og allt. Hef ekki þorað að skrá mig í tíma klukkan 6 síðan. 

En af innkaupum í Boston ferðinni.  Ég nældi mér í nokkra vel valda hluti þar, meðal annars þennan gullfallega Marc Jacobs varalit. Hann heitir Pretty Little og er gordjöss! Ég hef alltaf fílað dökka varaliti meira heldur en ljósa.  Aðallega því ég er svo hvít að ég verð ennþá hvítari ef ég er með litlausa varaliti. 


Hér er dýrðin.  Mér finnst hann svo flottur.  Hann er þekjandi en samt ekki svona mattur, það kemur meira svona mött glossáferð af honum sem ég þarf að venjast því ég hef eiginlega alltaf matta varaliti.  



Ég ákvað að hressa upp á hversdagsleikann þar sem hann hafði einkennst af kvefi og almennum slappleika, þið sjáið snýtirúlluna mína í bakrunni þarna, með því að kaupa mér bleikar bónusrósir. Þær hafa endst alveg ótrúlega lengi, svona miðað við að vera keyptar í andyrinu í Bónus.  En annars er nú ekkert að gerast annað en kennurum finnst ofboðslega gaman að hafa próf sem maður þarf nú að læra fyrir.  




Saturday, September 27, 2014

These are the few of my favorite things vol.2

Nokkrir hlutir sem mér finnst gott að nota eða eru í uppáhaldi. 


Orange turtleneck
Þessi gullfallega, hálfrúllukragapeysa sem ég keypti í H&M útí Boston.  Hún er svo mjúk og góð, enda er ull í henni.  Það þarf reyndar að handþvo hana, við sjáum til hvernig það gengur.  Ég er mjög löt að handþvo og yfirleitt enda þær flíkur í óhreina tauinu í margar vikur ef ekki mánuði.  En ég vona að það verði ekki með þessa því ég elska hana! 


Mac Strobe Liquid.


Þetta er örugglega ein uppáhalds undirbúningssnyrtivaran mín, ég bjó til orð um snyrtivöru, Ég nota þetta undir meikið.  Varan virkar þannig að hún gefur húðinni svo fallegan ljóma og maður verður allur frískari í framan.  Ef ég er að fara eitthvað fínt þá læt ég auka á kinnbeinin, beint fyrir ofan efri vörina, mitt ennið og beina línu á nefið.  Mér finnst þessi vara ómissandi þegar ég er að fara eitthvað fínt eða vakna grá og gugginn. 

Haute & Naughty Lashes.



Þetta er eini maskarinn sem ég hef keypt tvisar.  það sem ég elska við hann er tvöfalda greiðan.  Ég er með frekar löng neðri augnhár og þau eiga það til að klessast.  Þessi reddar því algjörlega því þegar ég set maskarann á neðri augnhárin dreg ég seinni greiðuna fram og þá er miklu minna á honum þannig augnhárin klessast ekki neitt.

   





Thursday, August 28, 2014

Draumur í krukku

Ég er svolítið sein að uppgötva kókósolíuna, sem er búin að tröllríða matarmenningunni á Íslandi.  En það sem ég hef líka tekið eftir er að sumir nota hana til að þrífa af sér snyrtivörur.  




Ég hef stundum notað barnaolíu til að þrífa af mér augnfarða eða Enjo-púða (þeir eru algjör snilld fjalla um þá seinna) en ég hafði ekki fundið góða vöru til að þrífa af mér varaliti.  Ég vil ekki nota þvottapoka því það festist svo mikið í þeim.  Þannig í staðinn læt ég heit vatn renna á bómul og dýfi honum svo ofan í kókosolíuna og nudda, þetta verður pínu subbulegt, svo tek ég bara rakan bómul og þurrka restina af. 

 Það verður engin afgangur eftir þótt þú hafir verið með þurrar varir undir litnum sem er algjör snilld og þetta skilur varirnar eftir silkimjúkar og fínar.  Ég geri þetta líka við augun og þetta virkar svo vel og mér líður svo mjúk í kringum augnsvæðið eftir þetta.

Friday, July 4, 2014

Langt síðan síðast

Það er sko langt síðan seinast.  Er að detta aftur í rútínu eftir að hafa komið mér fyrir heima á Egilsstöðum, taka restina af prófunum og byrja í nýrri vinnu.

Það sem á daga mína hefur drifið eru útskriftir í maí, ein á Egilsstöðum og ein í Reykjavík, góður matur og frábær félagsskapur.  Það er svo gott að hitta allar vinkonurnar hér fyrir austan eftir að hafa verið í Reykjavík allann veturinn.



Fékk mér einn svona kokteil í Reykjavík, hann heitir Strawberry Delight og fæst á Kaffi Paris.  Þetta er eins og að drekka jarðarberjanammi hann er svo góður.  Gæti reyndar trúað því að sumum myndi finnast hann of sætur en ekki sykursjúklingurinn ég, hann rann ljúflega niður. 



Fengum loksins ástæðu til að vera með svörtu húfurnar okkar saman.  Eina góða myndin sem ég náði af okkur þennan dag. En mér finnst svo gaman að láta upp þessa húfu á útskriftum. 



Vinstri myndin er þessi ótrúlega flotti Múmínálfa-pottur sem vinkona mín fékk í útskriftargjöf.  Ég elska hann! Við gerðum líka rosalega gott döðlugott, tók reyndar ekki mynd af því en uppskriftina má finna hér.



Seinasta myndin er af honum Snata krútt.  Þetta er annar af hundunum í sveitinni, það var svo rosalega gott veður í byrjun sumar að maður hefði getað búið út á palli, en ekki lengur það er bara hellidemba og algjört inni kósý veður. 
En þangað til næst... 

















Thursday, May 8, 2014

These are the few of my favourite things


Ég var að hugsa um að koma með fastann lið í bloggið, ætla að reyna að hafa þetta einu sinni í viku eða svo, þar sem ég tel upp nokkra af uppáhalds hlutunum mínum þá viku. 

Í þessari viku eru það þrír hlutir sem standa uppúr og eiga það allir sameiginlegt að vera snyrtivörur:



Fyrst er  það vara frá make up store,  þetta er svokallaður "mudmask" eða leðjumaski.  Hann sér um að djúphreinsa húðina og mér finnst hann líka gera hana extra mjúka.  Ég ber svolítið þykkti lag á eftir sturtu þar sem ég skrúbba yfirleitt húðina rosa vel.  Það er fínt að horfa eins og á einn Friends þátt á meðan maskinn vinnur vinnuna sína og skola hann svo af með vatni.  Það stendur að maður eigi að nota hann 1-2 í viku en þar sem ég er mjög löt við að dekra svona við mig gerist þetta kannski svona 1-2 í mánuði hjá mér.  En mér líður alltaf jafnvel í húðinni eftir á. 




Þessi naglalakkaeyðir er guðsgjöf fyrir letingja eins og mig.  Eina sem ég þarf að gera er að stinga puttanum ofan í og snúa í 1-2 hringi og þá er naglalakkið farið af.  Það er reyndar aðeins meira mál að taka af naglalakk með glimmeri þá þarftu að nudda aðeins meira en það kemur af á endanum.  Helsti gallinn er samt að mér finnst neglurnar mínar verða einhvern veginn brothættar eftir að hafa notað þetta, reyndar hef ég sjaldan rekist á naglalakkaeyði sem gerir þetta ekki.  Þannig ég held að þetta sé frekar naglabyggingin mín frekar en naglalakkaeyðirinn.





Þetta er minn uppáhaldsgrunnur fyrir naglalökk og ég set hann yfirleitt alltaf á mig þó ég sé ekki að fara að setja á mig einhvern lit.  Mér finnst þetta í alvörunni virka, s.s. að þetta styrkir neglurnar mínar. Mér líður stundum illa í nöglunum þegar ég er búin að taka naglalakkið af, eins og þær séu þunnar og viðkvæmar.  Þetta naglalakk lagar það um leið. 




Tuesday, May 6, 2014

Sælir nú..

loksins, loksins, loksins eru prófin búin! eða svona næstum ég er ein af þessum sem þarf að taka upptökupróf en  ég get aðeins andað núna áður en ég dembi mér í þau.  En það sem er búið að standa uppúr í bloggleysinu mínu er eftirfarandi:

Afmæli! Ég átti afmæli, en ekki á alltof skemmtilegum tíma þegar maður er námsmaður.  15.apríl akkúrat þegar prófin eru að byrja og allir á fullu að læra og engin hefur tíma fyrir mann, sem er einstaklega slæmt fyrir svona afmælispervert eins og mig. 
 Ef þið hafið horft á New Girl þegar Jess átti afmæli, þá já ég hef óraunhæfar væntingar.  En þar sem sambýlismaðurinn lagði inn beiðni um að fá að dekra við mig daginn eftir afmælið mitt því hann var að skila verkefni á sjálfann afmælisdaginn þá ákvað ég að vera fullorðin og fara ekki í fýlu. Stórt skref fyrir Ernu. 
Það hjálpaði líka að ég fékk blóm og smá út að borða. Einnig tók vinkona mín málin í sínar hendur og kom með köku með kertum, þannig ég fékk að blása á kerti, blöðrur og við fórum í bíó saman.  
En daginn eftir fékk ég þess dýrindismáltíð og hvítvín með.  Hann kann að elda, drengurinn.


Ég er fylgjandi þeirri stefnu að láta mér líða eins vel og ég mögulega get fyrir próf. Sem sagt ef prófið er ekki fyrr en eftir hádegi, fer ég í langa sturtu, borða vel og það sem mig langar í (mjög mikilvægt). Annað mál ef prófið er klukkan 9, þá drattast ég frammúr um korter yfir 8 og gleypi í mig mat á meðan ég les glósur.
 Einn morguninn vaknaði ég líka með þetta þvílíka löngun í pönnukökur, þar sem amma mín gaf mér rosalega fínt pönnukökujárn í afmælisgjöf ákvað ég að prufa aðbúa til amerískar pönnukökur, jeremías hvað þetta var gott! suðusúkkulaði bráðnaði og svo drekkti ég þessu í hlynsírópi og skolaði niður með ískaldri nýmjólk, vása...
Uppskriftina má finna hér


Hérna er ég nýbúin að  hitta fjölskylduna á Hamborgarafabrikkunni, nýbúin í prófum, þannig stelpan ákvað að fara í gallabuxur og skyrtu og mála sig í fyrsta skipti í mánuð, skellti af sjálfsögðu í sparibros.  Skemmtilegt að láta fylgja að ég færði mig varla úr sófanum það sem eftir lifði dags.


En það styttist óðum í sumarfrí og Egilsstaði, er orðin mjög spennt fyrir því. 

Wednesday, March 26, 2014

Kósýdagur

Um daginn ákvað ég að taka mér góða pásu og læra heima í staðinn fyrir að vera upp í skóla. Hafði verið þar marga daga í röð í langan tíma og var komin með pínu ógeð.
 Ég hafði keypt mér tímaritið Nýtt Líf þar sem var viðtal við Kate Hudson, varð reyndar fyrir pínu vonbrigðum hvað það var stutt og virkaði ópersónulegt. En blaðið fylgdi með tímaritinu Hús og Híbýli, ég hafði nú ekki miklar væntingar til þess, en ég hafði rangt fyrir mér.  Blaðið var eiginlega bara sett upp af viðtölum við fólk um heimilið þeirra þar sem það sýndi hluti sem því þótti vænt um eða höfðu einhverja merkingu fyrir þeim og mér fannst rosa gaman að lesa það. 


Þegar pásan mín var búin, ákvað ég að hafa örlítið meira kósý í kringum mig og kveikja á kertum.  Það gekk ágætlega að læra þó svo að ég hafði ekki jafnmikla einbeitingu og upp í skóla. 


En annars fór ég í bíó á 12 years a slave, ég bjóst við alveg ágætri mynd en ég sat eiginlega frosin allann tímann og drakk í mig myndina.  Rosalega átakanleg mynd en samt mjög góð. En bráðum fara prófin að detta í gang (vonandi), hlakka svo mikið til að fá sumar og sól og smá afslöppun.

Tuesday, March 11, 2014

Einn grænn og góður



Ég er rosalega ófrumleg þegar kemur að nestisgerð fyrir skólann þannig að yfirleitt enda ég á því að grípa með mér kókómjólk og epli.  En upp á síðkastið hef ég verið að gera smoothie sem er rosalega gott og ég bjó til svona líka rosalega góðan, að mínu mati minn besti hingað til, smoothie um daginn og ákvað að deila því hérna með ykkur. 

En í honum er:

1 epli (ég nota rautt)
Slatta af frosnu mangó
Þjár lúkur af spínati
Skvetta af ávaxtasafa (ég nota multivit sem fæst í Bónus)



Allt í blandara og svo kemur þessi rosa góði drykkur. Svo prufaði ég líka að setja engiferrót út í, það er mjög gott. Ég læt svona 2,5-3 cm af engiferrótinni, en mér finnst gott að hafa sterkt engiferbragð. 



Tuesday, February 18, 2014

Skrifborðshugleiðingar



Þar sem ég missti skrifborðið mitt hefur mig langað að fá mér nýtt, pent skrifborð undir súðina mína.  Ég hef verið að skoða ýmis lítil vinnurími og hef fundið margt svo fallegt. Þetta er aðeins brotabrot af því sem ég hef verið að skoða en þessar myndir stóðu upp úr. 



Ég elska hugmyndina um að hafa lítið glerherbergi, það eru nú heldur stórir draumar í bili en kannski einhvern daginn. 



Finnst þetta nokkuð kósý.



Stílhreint



Er pínu skotin í þessari litasamsetningu.


Gæti hugsað mér að læra þarna.










Ég veit ekki hvenær ég fer í þessar aðgerðir en það er rosalega gaman að láta sig dreyma þegar maður skoðar sig um á netinu.

Saturday, February 15, 2014

Valentínusardagur

Miðmisserisprófin byrjuðu í seinustu viku, við lítinn fögnuð, og halda áfram næstu þrjár vikur. Eitt próf á viku kemur sko skapinu í lag...

Eldhúsborðið nýtt vel


 En í gær var farið út að borða, ekki í tilefni Valentínusardags heldur bara af því að við kærustuparið langaði að tríta okkur. Ég er ekki mikill aðdáandi þessa dags eiginlega bara út af því að það er til konudagur og svo bóndadagur og mér finnst það einum degi of mikið að skella inn valentínusardeginum þarna líka.

 En við fórum á Rub 23 sem er klárlega uppáhalds, hérna í Reykjavík.  Ég fór rúllandi út eftir þriggja rétta máltíð og hitti svo annað kærustupar í spil og kokteila, rosa skemmtilegt kvöld. Kokteillinn sem ég fékk mér í for-forrétt (fékk mér kokteil og svo forrétt) var geggjaður.  Þó svo að ég held að ég hafi skemmt mörgum þegar ég byrjaði að veiða jarðaberin upp með höndunum, svo benti betri helmingurinn mér á að það væri kannski betra að nota gaffalinn.  En aðalatriðið var að ég náði öllum jarðaberjunum.

Góóður kokteill
Ég ákvað nú líka að vera smá sæt og lét blóm í hárið á mér og var með bleikan varalit.


Þangað til næst...










Wednesday, February 5, 2014

Matarkyns...


Eitt kvöldið greip mig alveg svakaleg "mönsís", ég bara varð að fá eitthvað sætt og gott á bragðið og helst óhollt.  En þar sem að ég er nú að reyna að láta ekki allt eftir mér varðandi mat þá ákvað ég að búa til eitthvað sem væri hollt og gott í staðinn (og ódýrara).  

Núna er ég búin að gera þetta tvisar og í seinna skiptið heppnaðist þetta miklu betur. Þá reyndar leyfði ég fjórum suðusúkkulaðibitum að fljóta með, en ég er nú bara mannleg. 

Ég tók 2 epli og skar í tvennt og hreinsaði kjarnann úr þannig að lítil hola myndast í miðjunni. Næst tók ég möffinsform og lét hafra í botninn. 


 Því næst er látið einn suðusúkkulaðibita ofan í holuna.

.
 Velt upp úr kókós, eftir á að hugsa væri sniðugra að velta fyrst uppúr kókósi og svo láta súkkulaðið. 


Næst er þeim komið ofan í möffinsformið og stráð kanil yfir og aðeins meiri kókós, svo inn í ofn.  Beðið í svona 10 mínutur eða þangað til kókosinn er byrjaður að brúnast aðeins.


 Líta svo girnilega út, og var mjög bragðgott. 


Ég allavega losaði mig við svona klukkutíma af hugsunum um súkkulaði og nammi með þessu.  

Tuesday, January 28, 2014

Af burstum og burstahreinsun

Ég ákvað að kíkja í MAC í Kringlunni um daginn, því ég á svo mikinn pening sjáið til verandi námsmaður og svoleiðis.. En allavega það sem greip athygli mína voru nýju burstarnir sem líta út eins og nokkurskonar tannburstar.  Ég hafði lesið um þá á trendnet.is, eða hér.  En þeir líta svona út

 

Ég ákvað að kaupa mér þennan stóra því að ég hef verið óánægð með minn því mér finnst hann drekka meikið mitt.  Ég varð alls ekki fyrir vonbrigðum hann gerir mjög fallega áferð, því hann er rosalega þéttur, og maður þarf mjög lítið af meiki til að hylja allt andlitið og niður á háls. Mig langar líka í hina tvo en það verður að bíða betri tíma. 


En af burstahreinsun.  Ég ákvað að hreinsa burstana mína því ég hef ekki gert það hingað til heldur bara beðið þangað til að þeir voru orðnir hálf ljótir og bara ónýtir og þá keypti ég mér nýja.  Ég hef samt oft lesið að það sé nauðsynlegt að þrífa þá og ég skil það núna.  Mér brá hvað það var mikið sem kom úr þeim sérstaklega gamla meikburstanum mínum.  Ég notaði burstahreinsi sem ég keypti mér í Make Up Store, hann er rosalega einfaldur í notkun og hreinsar vel. Þetta var þvottapokinn sem ég notaði til að nudda í, mér finnst samt þessi mynd ekki sýna hvað þetta var mikið.

 

 Annars er ekkert á dagskrá nema skóli og svo er RISAvísó á föstudaginn, er megaspennt fyrir því.


Saturday, January 25, 2014

Undanfarin vika.


Þetta er nú búin að vera frekar tíðindalaus vika, þar sem ég er búin að liggja í veikindum og almennum leiðindum.  En seinustu helgi var vísó í Kauphöllina sem var rosalega skemmtileg ég ákvað að nýta tækifærið og nota augnskuggana sem ég hafði keypt mér og fór með fjólublátt smokey.


Fannst þetta nú bara takast ágætlega.  En meira var nú ekki gert þessa helgi nema læra og hafa það almennt kósý.  

Vikan stóð saman af því að liggja upp í sófa og horfa á þætti og reyna að læra inná milli.   

En þessa helgi hittum við kærustuparið annað kærustupar (hehe) og elduðum pizzu heima, strákarnir helduðu venjulega pizzu en við stelpurnar ákváðum að prufa að skella í blómkálspizzu, sem var líka svona rosalega gott.  Ásamt því ákvað ég að baka "cupcakes" sem heita red velvet og eru rauðar á litinn.  Þær slógu rækilega í gegn. Reyndar ætlaði ég upphaflega að hafa bæði súkkulaðikrem og hvítt súkkulaðikrem en þetta hvíta krem misheppnaðist örlítið þannig að það fór bara rétt á toppinn á kökunum.  Ætla klárlega að baka svona aftur.


Sunday, January 19, 2014

Þættirnir mínir

Ég á mér þónokkra þætti sem ég hlakka alltaf pínu til að horfa á í hverri einustu viku. Oftar en ekki nota ég þá sem "gulrót", s.s. segi við sjálfan mig ef ég klára þessi heimadæmi get ég farið heim og horft á einn þátt. Ég ákvað að deila þeim með ykkur ef einhverjum vantar eitthvað nýtt til að horfa á.  

Pretty little liars


Ég hef ágætlega gaman af þessum þáttum en ég hef enn meira gaman af því að fylgjast með í hvernig fötum þær eru og hvernig þær eru farðaðar.


Nashville


Klassa "kántrí" drama.  Ég veit ekki hversu margir myndu fíla þessa þætti en ég elska þá.  Þó stundum finnst mér dramað ganga einum of langt, þá hef ég einstaklega gaman að söngatriðunum.

Hart of dixie


Þessir þættir finnst mér rosa skemmtilegir.  Mjög metnaðarfullur læknir neyðist til að flytja í lítinn, vinalegan bæ og lærir þar mannleg samskipti.  Margir skemmtilegir karakterar, mjög mikið drama og stundum kjánahrollur.


New Girl


Held að flestir þekki þessa þætti og Jess er klárlega krúttlegasta kona sem búin hefur verið til í þáttum, hingað til.

How I Met Your Mother


Ég er örugglega ein af fáum sem fylgist ennþá með þessum þáttum. Þó að þeim hafi farið mikið aftur þá er ég mjög forvitin manneskja sem verður að fá að vita hvernig þetta endar allt saman.


Criminal Minds


Hef fylgst með þessum þáttum frá byrjun held ég, mjög spennandi yfirleitt. 




The Big Bang Theory 


Finnst þessir eiginlega alltaf jafn skemmtilegir og ekki skemmir fyrir að ef maður kannast við jöfnurnar þegar Sheldon er að reikna eða skilur stærðfræðibrandara, líður svo gáfuð þá. 



Sherlock Holmes


Sherlock Holmes settur í nútímabúning og veldur ekki vonbrigðum. Ég er tiltölulega nýbyrjuð að horfa á þessa þætti.  Það eru bara þrír í hverri seríu og þeir eru u.þ.b. klukkutíma langir.  Mæli ekki með að festast í þessu þegar maður þarf að læra, ég tala af reynslu.



Þetta eru nú aðeins fleiri þættir en ég gerði mér grein fyrir.  Ég er rosalega vanaföst þannig að það gerist mjög sjaldan að ég hætti að horfa á þætti ef ég byrja að horfa á þá, svona eins og How I met your mother.  En ég vona að einhverjir hafi kannski fundið nýja þætti til að horfa á.